Kolbeinn Óttarsson Proppé nýkjörinn þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboð segir frá skemmtilegu atviki á facebook síðu sinni í dag um eftirvæntinguna fyrir því að byrja í hinu nýja starfi.

Þannig er að starfsmenn Alþingis halda iðulega námskeið um störf þingsins fyrir nýbakaða þingmenn en Kolbeinn misreiknaði sig aðeins þegar kom að tímasetningunni.

Mætti viku of snemma

„Já ég var orðinn svolítið spenntur, fannst þetta ekkert endilega vera of seint að vera að mæta núna og mætti galvaskur, og passaði að vera ekki of seinn,“ segir Kolbeinn við Viðskiptablaðið og hlær.

„Og það reyndist hafa tekist svona rosalega vel að ég mætti rúmri viku fyrir námskeiðið.“

Er í takt við spenninginn

Spurður hvort það hafi ekki verið vandræðalegt sagði hann svo ekki vera.

„Ég hef ágætishúmor fyrir sjálfum mér. Við hlógum dálítið að mér, ég og starfsfólk þingsins, en þetta er í takt við spenninginn“ sagði Kolbeinn en fyrst hafði einn starfskona þingsins spurt hvort fundurinn væri strax.

„Ég hélt það nú, gekk frá öllu mínu dóti og þrammaði inn í þingsal, þar var náttúrulega enginn og þá fóru að renna á mig tvær grímur. Ég kíkti á póstinn og sá að námskeiðið átti að vera þann níunda. Ég er nú ekki bestur í dagsetningum svo ég þurfti að kanna hvort það væri ekki níundi dag.“

Upplýsingabæklingur hringdi engum bjöllum

Kolbeinn segist hafa heyrt að upplýsingabæklingur til nýrra þingmanna hefði verið settur í póst í gær.

„Mér fannst það ekkert athugavert og það hringdi engum bjöllum hjá mér að hann fór í póst í gær og ég ætti að mæta á fundinn í dag,“ segir Kolbeinn sem var nú samt ekki að mæta í fyrsta sinn í Alþingishúsið.

„Ég er búinn að koma þarna á held ég á hverjum degi síðan kosningarnar voru, að funda og spjalla við starfsfólkið, og kynna mig og kynnast fólki, þannig að það var bara fínt að vera kominn þangað.“

Viðskiptalífið þarf ekki að óttast Vinstri græna

Kolbeinn segist hlakka til við að taka til starfa á þinginu.

„Ég held að við þingheimur hljótum að geta sameinast um það eftir þessar kosningar og í ljósi þess sem allir flokkar lofuðu fyrir kosningar, að ganga í það að bæta stöðu aldraðra og öryrkja,“ segir Kolbeinn sem segir aðspurður að Viðskiptalífið þurfi ekki að hafa áhyggjur af sterkri stöðu Vinstri grænna á þingi.

„Það þarf enginn að óttast neitt. Við hljótum öll að stefna að því að gera samfélagið betra, bæði við og viðskiptalífið, en við þurfum náttúrulega að horfa á okkar sjónarmið um betra og mannvænlegra samfélag. Viðskiptalífið hlýtur að vilja það.“

Vill einhenda sér í að bæta samfélagið

Kolbeinn segist hlakka til að hefja störf á þinginu. „Þá getum við farið að einhenda okkur í það að bæta þetta samfélag,“ segir Kolbeinn sem svarar þegar hann er spurður hvort hann mæti á réttum tíma þá.

„Ég ætla alla vega ekki að mæta svona snemma aftur, en ég ætla að reyna alla vega að mæta á réttum tíma.“