„Það að [Davíð] Oddsson skuli neita því að stíga niður er mjög vandræðalegt,“ segir Lars Christensen, forstöðumaður greiningardeildar hjá Danske Bank í samtali við Bloomberg fréttaveituna.

Í frétt Bloomberg, sem reyndar er skrifuð að íslenskum blaðamanni fréttaveitunnar, er fjallað um þau átök sem orðin eru milli seðlabankastjóranna og forsætisráðherra.

„Það er ljóst að ríkisstjórnin á ekki að skipta sér af rekstri seðlabankans, en í ljósi þeirra mistaka sem gerð hafa verið ætti stjórnin [stjórn Seðlabankans] að hafa þegar stigið til hliðar,“ segir Christensen.

Þá hefur Bloomberg fréttaveitan eftir Thomas Haugaard, hagfræðing hjá Svenska Handelsbanken í Kaupmannahöfn að það sé nauðsynlegt fyrir Ísland að mynda trúverðugleika um efnahagsáætlanir stórnvalda.

„Það er mjög skynsamlegt að hreinsa til í kerfinu. Ábyrgð Seðlabankans var að hafa eftirlit með fjármálakerfinu, þeir hefðu átt að gera sér grein fyrir því hvað var að gerast.“

Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands segir í samtali við Bloomberg að í öllum öðrum löndum hefðu seðlabankastjórar stigið til hliðar eftir að ríkisstjórn landsins hefði krafist þess að þeir gerðu svo.

Þó eru engin dæmi um slíkt í fréttinni og Gunnar Helgi nefnir engin dæmi um slíkt.

Þá vitnar Bloomberg í frétt Morgunblaðsins frá 30. janúar s.l. þar sem fram kemur að Már Guðmundsson, fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans hafi þegar verið beðinn um að verða bankastjóri Seðlabankans.

„[Már] Guðmundsson er einn besti hagfræðingur sem Íslendingar hafa,“ hefur Bloomberg eftir Christensen hjá Danske Bank.

Sjá frétt Bloomberg í heild sinni.