Í skýrslu Viðskiptaráðs frá því í desember í fyrra er mælst með því að hafinn verði útflutningur á notuðum bílum.

Haraldur I. Birgisson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, segir að síðan skýrslan var samin í fyrra hafi aðstæður gerbreyst sem geri það enn meira knýjandi en áður að reglum verði breytt svo útflutningur geti hafist.

Viðskiptaráð styður frumvarp sem lagt hefur verið fram um endurgreiðslu á gjöldum til að liðka fyrir útflutningi á notuðum bílum.

„Við höfum lagt til hvernig framkvæmdin ætti að vera, þ.e.a.s. endurgreiðsluhlutfall miðað við söluverð bifreiða. Framkvæmdin ætti því að vera einföld,” segir Haraldur.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá liggja á milli 20-25 milljarðar króna í óseldum notuðum bílum hér á landi og miðað við 2,5 milljóna meðalverð á bíl gætu útflutningstekjur numið hátt á annan tug milljarða í beinhörðum gjaldeyri.