„8% af stjórnarsætum hundrað stærstu fyrirtækja á Íslandi skipa konur. Sú staða er ekki viðunandi. En það þýðir ekkert fyrir okkur að sitja og væla bara, við þurfum að horfa fram á veginn og hugsa „Hvernig getum við breytt þessu?““ sagði Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, í ræðu sinni á ráðstefnunni „Konur og réttlæti“ rétt í þessu.

Kristín sagði konur ekki eiga að bíða eftir að „strákarnir bjóði sig velkomnar.“ Þær þurfi að láta til sín taka.

„Tækifærin eru til staðar. Mannauður kvenna hefur aldrei verið meiri en í dag, konur eru í meirihluta í öllum deildum háskóla,“ sagði Kristín.

„Um það vil tveir þriðjungar háskólanema eru konur og þetta hlutfall er sérstaklega hátt í viðskiptatengdum fögum. Kunnáttan er því til staðar og reynsla kvenna af fyrirtækjarekstri er líka að vaxa. Fjöldi kvenna er í forsvari og ábyrgar fyrir daglegum rekstri fyrirtækja, en þær eru sjaldan forstjórar og enn sjaldnar eigendur, sérstaklega fyrirtækja í stærri kantinum. En þetta er að breytast og 70% nýstofnaðra fyrirtækja í Bandaríkjunum eru stofnuð af konum.“

Kristín sagði þau fyrirtæki sem stofnuð eru af konum lifi að meðaltali lengur en önnur fyrirtæki, auk þess sem þau skili að meðaltali hærri arðsemi.

„Maður þarf ekki að vera karmaður til að stofna fyrirtæki,“ sagði Kristín.

„Konur virðast vera feimnar við að græða, þær setja orðið græða í samhengi við orðið græðgi. En fjárhagslegur ávinningur er lykillinn að frelsi og jafnræði. Stofnum fyrirtæki stelpur. Og ef við eigum fyrirtæki, kaupum þá annað fyrirtæki.“