Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,3% frá því að opnað var fyrir viðskipti kl. 10 í morgun og stendur nú þegar þetta er skrifað, kl. 12:10 í 670 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 5,8% í gær en rétt er að hafa í huga að fyrst í gær var opnað fyrir viðskipti með hlutabréf eftir þriggja daga lokun.

Þegar markaðir lokuðu á miðvikudag stóð Úrvalsvísitalan í 3.005 stigum en þegar opnað var á ný í gærmorgun stóð vísitalan í 720 stigum.

Í millitíðinni höfðu Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn verið „núllaðir út“ og hafði Úrvalsvísitalan því lækkað um 76% í millitíðinni.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga. Aðeins tvö félög, Össur og Marel hafa hækkað.

Eimskipafélagið hefur hins vegar lækkað um 66,7% í morgun og ef fer sem horfir hefur félagið lækkað um 98,6% frá áramótum. Rétt er þó að taka fram að aðeins hafa farið fram tvenn viðskipti með bréf í Eimskipafélaginu í dag fyrir um 11.500 krónur.

Heildarvelta með hlutabréf er aðeins 14 milljónir króna. Þar af eru 7,8 milljónir með bréf í Össur og 2,5 milljónir með bréf í Marel en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum.