Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,40% það sem af er degi og er 5.652,28 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands.

Bakkavör Group hefur hækkað um 3,53% en félagið mun birta uppgjör sitt næstkomandi fimmtudag og spáir greiningardeild Glitnis félaginu 5 milljón punda (666 milljónir króna) hagnaði á fyrsta ársfjórðungi.

FL Group hefur hækkað um 2,51% og Kaupþing banki hefur hækkað um 1,83% en bankinn mun birta ársfjórðungsuppgjör sitt á fimmtudaginn næsta, greiningardeild Glitnis spáir að hagnaður hans verði 14 milljarðar á tímabilinu.

Landsbankinn hefur hækkað um 1,34% og Straumur-Burðarás hefur hækkað um 1,23% en fjárfestingarbankinn mun einnig birta ársfjórðungsuppgjör sitt á fimmtudaginn. Greiningardeild Glitnis spáir að hagnaður Straums-Burðaráss nemi um 14 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi.

Flaga Group hefur lækkað um 1,23%, Dagsbrún hefur lækkað um 1%, Alfesca hefur lækkað um 0,77%, Mosaic Fashions hefur lækkað um 0,54% og Atlantic Petroleum hefur lækkað um 0,34%.

Gengisvísitala krónu hefur lækkað um 2,24% það sem af er degi og er 127,71 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi banka. Krónan hefur því styrkst um sem því nemur.