Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,2% frá því að opnað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni klukkan 10 í morgun og stendur nú þegar þetta er skrifað, kl. 12:05 í 3.403 stigum, samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 16,6% í gær en tók að hækka lítillega við opnun markaða í morgun. Þó hefur nokkuð dregið úr þeirri hækkun en um tíma í morgun hafði vísitalan hækkað um 1,1%.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga.

Velta með hlutabréf er um 8,4 milljarðar króna og þar af eru um 5,8 milljarðar króna með bréf í Landsbankanum en í morgun fóru fram mikil viðskipti með bréf í félaginu.

Þá er velta fyrir um 1,5 milljarð króna með bréf í Kaupþingi, um 480 milljónir með bréf í Straum og um 390 milljónir með bréf í Glitni en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum.

Krónan hefur veikst nokkuð það sem af er degi eða um 5,1% og er gengisvísitalan nú 206,7 stig. Þetta er í fyrsta skipti sem gengisvísitalan fer yfir 200 stig.