Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,1% frá því að opnað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni klukkan 10 í morgun og stendur nú þegar þetta er skrifað, kl. 12:00 í 3.012 stigum, samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,5% í gær og hélt áfram að lækka við opnun markaða í morgun.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga en aðeins eitt félag, Össur hefur hækkað í morgun. Þá hefur Eimskip lækkað um 51,6% í dag og ef fer sem horfir hefur félagið lækkað um rúm 95% frá áramótum.

Örlítið hefur dregið úr lækkun Bakkavarar en félagið hefur nú á hádegi lækkað um 20,8% en hafði fyrr í morgun lækkað um 21,7%.

Þá hefur Eik banki lækkað um 15,8%.

Í fyrradag voru viðskipti með fjármálafyrirtæki stöðvuð af fjármálaeftirlitinu og hafa enn ekki verið leyfð á ný.

Velta með hlutabréf er rétt tæpar 270 milljónir en þar af eru tæpar 100 milljónir með bréf í Össur.

Þá er velta fyrir rúmar 92 milljónir með bréf í Bakkavör, um 30 milljónir í Alfesca og um 25 milljónir í Marel en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum og engin velta í öðrum.