Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,87% og er 6.235 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá M5. Veltan nemur 3.527 milljónum króna. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,8% það sem af er september og hækkaði um 14,1% í ágúst, samkvæmt upplýsingum frá greiningardeild Glitnis.

?Síðasta vika var mjög fjörug á hlutabréfamarkaði enda lauk tveimur útboðum, hjá Exista og Marel. Bæði útboðin gengu vel og var umframeftirspurn talsverð í útboðunum. Hlutabréf beggja félaganna hafa hækkað talsvert frá útboðsgengi en útboðsgengi Marel var 74 krónur á hlut en gengi á markaði stendur í 81 krónum þegar þetta er ritað.

Að sama skapi var útboðsgengi EXISTA var 21,5 krónur á hlut og er 23,2 krónur þegar þetta er ritað. Þó ber að taka fram að enn á eftir að afhenda útboðshlutina og má gera ráð fyrir auknu framboði þegar það gerist og lítilsháttar lækkun í kjölfarið," segir greiningardeild Glitnis.

?Svo virðist sem fjárfestar geri ráð fyrir góðri afkomu á þriðja ársfjórðungi og hefur eftirspurnarhliðin á hlutabréfamarkaði verið með ágætum í mánuðinum. Meðalveltan á hlutabréfamarkaði dregst þó saman á milli mánaða en gera má ráð fyrir að veltan aukist eftir því sem nær dregur lokum á fjórðungnum," segir greiningardeild Glitnis.

Exista hefur hækkað um 2,21%, Glitnir hefur hækkað um 1,51%, Kaupþing banki hefur hækkað um 1,18%, Landsbankinn hefur hækkað um 1,16% og Bakkavör Group hefur hækkað um 1,04%.

Dagsbrún hefur lækkað um 1,26%, Avion Group hefur lækkað um 0,91% og Straumur-Burðarás hefur lækkað um 0,59%.

Gengi krónu hefur styrkst um 0,49% og er 122,5 stig við hádegi.