Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,97% það sem af er degi og er 5.546,90 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands.

FL Group hefur hækkað um 3,68% og Mosaic Fashions hefur hækkað um 3,58% en það síðar nefnda mun birta uppgjör sitt á miðvikudaginn. Uppgjörið er fyrir fjórða ársfjórðung síðasta fjárhagsárs þar sem fyrirtækið styðst ekki við almanaksárið. Greiningardeild Glitnis spáir að félagið muni hagnast um 5,8 milljón pund (um 800 milljónir íslenskra króna) á ársfjórðungnum.

Straumur-Burðarás hefur hækkað um 3,07% það sem af er degi en fjárfestingarbankinn mun birta fyrsta ársfjórðungsuppgjör sitt á fimmtudaginn. Greiningardeild Glitnis spáir að hann muni hagnast um 14 milljarða á tímabilinu.

Kaupþingi banki hefur hækkað um 2,57% en bankinn birtir uppgjör einnig á miðvikudaginn og greiningardeild Glitnis spáir að hagnaður tímabilsins nemi 14 milljörðum.

Glitnir hefur hækkað um 2,40% í dag.

Fjögur fyrirtæki hafa lækkað. Atlantic Petroleum hefur lækkað um 2,48%, Nýherji hefur lækkað um 2,11%, Flaga Group hefur lækkað um 1,54% og Alfesca hefur lækkað um 1,48%.