Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,14% það sem af er degi og er 5.662,73 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Ef svo heldur áfram sem horfir verður þetta þriðji dagurinn í röð sem úrvalsvísitalan lækkar. ?Ljóst er að tilkynning alþjóðlega matsfyrirtækisins S&P fyrr í vikunni um breytingu á horfum á lánshæfi íslenska ríkisins hafði neikvæð áhrif á fjárfesta," segir greiningardeild Glitnis.

Hún segir að lækkunin komi í kjölfar hækkunar sex viðskiptadaga í röð sem nam samtals 8,3% og segir eðlilegt að fjárfestar innleysi hagnað eftir mjög skarpar hækkanir á fáum dögum.

?Þegar horft er á þróun ICEX-15 á undanförnum mánuðum sést að vísitalan hækkar og lækkar á víxl um nokkur prósentustig á fáeinum dögum. Markaðurinn virðist fréttadrifinn og tekur að okkar mati minna mið af rekstrarhorfum fyrirtækja," segir greiningardeildin.

Landsbankinn hefur lækkað um 2,73%, FL Group hefur lækkað um 2,05%, Össur hefur lækkað um 1,77%, Glitnir hefur lækkað um 1,65% og Alfesca lækkað um 1,52%.

Ekkert félag hefur hækkað við hádegi.

Gengi krónu hefur veikst um 0,48% og er 129,06 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi banka.