Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,12% við hádegi og er 5.588,70 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Í morgun tilkynnti Hagstofa Íslands að vísitala neysluverðs í júní hafi hækkað um 1,16% á milli mánaða en spár greiningaraðila voru á bilinu 0,7 - 0,9% hækkun á milli mánaða.

Hlutabréfamarkaðir á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum hafa einnig lækkað í dag. Norska vísitalan OBX hefur lækkað um 3,78%, sænska úrvalsvísitalan OMX hefur lækkað um 1,64%, danska markaðsvísitalan KFX hefur lækkað um 1,52%, Nasdaq hefur lækkað um 0,78% og SP500 hefur lækkað um 0,31%.

Fjárfestar virðast forðast áhættu og hafa verið að losa fjármagn, sem hefur leitt til þess að hlutabréfamarkaðir víða um heim hafa fallið verulega síðustu vikur, segir í skýrslu frá Bank of International Settlements (BIS).

Atlantic Petroleum hefur hækkað um 2,34% og Atorka Group hefur hækkað um 0,86%.

Flaga Group hefur lækkað um 2,98%, Mosaic Fashions hefur lækkað um 1,90%, Landsbankinn hefur lækkað um 1,85%, FL Group hefur lækkað um 1,59% og Kaupþing banki hefur lækkað um 1,31%.

Gengi krónu hefur veikst um 0,08% og er gengisvísitala hennar 129,64 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi banka.