Úrvalsvísitala aðallista Kauphallarinnar stendur nánast í stað nú á hádegi og hefur lækkað um 0,05% það sem af er degi í alls 137 viðskiptum fyrir alls tæplega 700 milljónir króna. Úrvalsvísitalan stendur nú í 5.923,60 stigum samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Á hádegi hefur Avion group hækkað um 1,55% í viðskiptum dagsins og Glitnir um 1,35%. Actavis hefur lækkað um 1,03% og Marel, Mosaic og Icelandic group hafa öll lækkað um 0,60%.

Gengið hefur styrkst um 0,11% og stendur gengisvísitalan nú í 118,11 stigum.

Morgunkorn Glitnis greinir frá því í dag að úrvalsvísitalan hafi nú hækkað um 24% frá því að hún fór lægst á þessu ári undir lok júlí. Greining Glitnis telur að hækkanir síðustu vikna á hlutabrefamarkaði hafi verið leiðrétting á hlutabréfaverði en góð kauptækifæri mynduðust í kjölfar neikvæðrar umræðu um horfur í hagkerfinu.

Þá segir Glitnir frá því að alls hafi gengi sex félaga hækkað yfir 20% á tímabilinu. FL Group hefur hækkað um 52%, Landsbankinn um 37% og Glitnir um 35%. Gengi fjögurra félaga hefur lækkað en það eru Avion, HB Grandi, Dagsbrún og Flaga Group.