Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,78% það sem af er degi og er 5.391,18 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Nýherji hefur hækkað um 1,43% og Atlantic Petroleum hefur hækkað um 0,79%. Þessi tvö félög eru þau einu sem hafa hækkað við hádegi.

Landsbankinn hefur lækkað um 2,22% en hann birti fyrsta ársfjórðungsuppgjör sitt í gær og nam hagnaður bankans 17,3 milljörðum fyrir skatta samanborið við 7,4 milljarða króna á sama tímabili árið 2005.

FL Group hefur lækkað um 1,61%, Straumur-Burðarás hefur lækkað um 1,20% en fjárfestingarbankinn birti ársfjórðungsuppgjör sitt þann 27. apríl og skilaði metafkomu.

Kaupþing banki hefur lækkað um 0,69% en bankinn birti ársfjórðungsuppgjör sitt þann 27. apríl og jókst hagnaður bankans um 69,5% á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við tímabilið í fyrra og Icelandic Group hefur lækkað um 0,57%.

Gengi krónunnar hefur styrkst um 0,07% og er gengisvísitala hennar 129,89 við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi banka.