Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,8% og er 4.275 stig við hádegi. Gengi krónu hefur styrkst um 1,5% og er 151,6 stig, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Veltan á hlutabréfamarkaði nemur 761 milljón króna. Á sama tíma nemur velta á skuldabréfamarkaði 8,9 milljörðum króna.

Helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu eru grænar það sem af er dags. Litið til Norðurlandanna, þá hefur danska vísitalan OMXC hækkað um 2,3%, norska vísitalan OMBX hefur hækkað um 1,3 og sænska vísitalan OMXS hefur hækkað um 1,5%, samkvæmt upplýsingum frá Euroland.

Sérfræðingar segja við Dow Jones fréttaveituna að lægra olíuverð auk orða Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hafi meðal annars haft  jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaði.

Í Hálffimm fréttum Kaupþings í gær er haft eftir Bernanke að fjárfestingabankar, sem og aðrir bankar, muni að öllum líkindum geta framlengt í lánum sínum við þarlend peningamálayfirvöld ef nauðsyn krefur þegar kemur að endurgreiðslum í september. Umræddir bankar eru m.a. Lehman Brothers og Merrill Lynch.

Century Aluminium, móðurfélag Norðuráls, rýkur upp um 6,9% en að baki hækkunarinnar liggja ein viðskipti fyrir 13 milljónir króna. Í gær tilkynnti félagið um að það ætlar að losa sig undan öllum framvirkum samningum á áli við Glencore, stærsta hluthafa þess.  „Við lausn undan samningunum telur félagið sig betur sett til að njóta álverðsins sem nú er í methæðum. Til að losna undan samningunum greiðir Century Glencore með 978,4 milljónir dollara í nýjum atkvæðalausum breytilegum bréfum og 730,2 milljónir dollara í reiðufé. Félagið verður að fullu laust undan framvirku samningunum um miðjan júlí,“ stendur í Vegvísi Landsbankans í gær.