Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 11,9% frá því að opnað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni klukkan 10 í morgun og stendur nú þegar þetta er skrifað, kl. 12:00 í 3.588 stigum, samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 4,8% í gær en tók dýfu strax við opnun markaða í morgun. Þar munar auðvitað mest um gengisfall Glitnis en Fjármálaeftirlitið hefur heimilað viðskipti með félagið á ný. Glitnir hefur lækkað um 60,8% í morgun og er gengið nú 6,15 á hvern hlut.

Hins vegar hefur Úrvalsvísitalan lítið hreyfst frá því hún hríðféll við opnun markaða.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga.

Velta með hlutabréf er tæpir 9,7 milljarðar króna og þar af eru rétt tæpir 7 milljarðar króna með bréf í Landsbankanum en í morgun fóru fram mikil viðskipti með bréf í félaginu.

Þá er velta fyrir um 1,9 milljarða með bréf í Kaupþingi en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum.

Krónan hefur veikst nokkuð það sem af er degi eða um 2% og er gengisvísitalan nú 190,6 stig.

Hér má sjá nánari umfjöllun um krónuna.