Úrvalsvísitalan hefur nú hækkað um 3,1% frá því að opnað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni klukkan 10 í morgun og stendur nú þegar þetta er skrifað, kl. 12:05 í 4.181 stigi.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 5,3% á föstudag og hækkaði á ný strax við opnun í morgun en hefur lítið hreyfst síðan þá.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga. Þar sést hvernig Exista leiðir hækkanir dagsins, annan viðskiptadaginn í röð en Icelandair Group og Alfesca eru einu félögin sem hefur lækkað það sem af er degi.

Velta með hlutabréf er um 38,3 milljarðar en þar af eru tæpir 29 milljarðar með bréf í Kaupþing. Eins og áður hefur komið fram seldi Kaupþing um 5% í félaginu í morgun á 25 milljarða auk þess að kaupa eigin bréf á tæpa 3 milljarða.

Þá er velta upp á tæpa 6,4 milljarða með bréf í Glitni, um 1,9 milljarðar með bréf í Landsbankanum og um 560 milljónir með bréf í Straum en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum.

Krónan heldur áfram að styrkjast og hefur nú styrkst um 0,7%. Gengisvísitalan er nú 170,8  stig en fór um tíma í morgun undir 170 stig. Dregið hefur lítillega úr styrkingu krónunnar nú undir hádegi.