Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,06% og er 5.871,50 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Veltan nemur 1.389 milljónum króna.

?Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, ICEX-15, lækkaði um 1,2% á föstudaginn eftir að hafa hækkað 12 viðskiptadaga í röð. Dagurinn [í dag] hófst reyndar með snarpri hækkun en markaðurinn snérist fljótt við og endaði sem fyrr segir með lækkun," segir greiningardeild Glitnis.

?Nú takast á tvö ólík sjónarmið, skammtíma- og langtímasjónarmið. Þegar hlutabréf hafa hækkað um 12% á jafnmörgum dögum er eðlilegt að sumir fjárfestar kjósi að innleysa hagnað enda endurspeglar hækkunin svipaða ávöxtun og reikna má með á heilu ári. Innlausn hagnaðar kann að vera skynsamlegt skref, einkum ef fjárfestir telur að markaðurinn fari offari og sigli á bjartsýnisöldu sem byggi á veikum grunni. Slík ákvörðun getur einnig verið skynsamleg ef kaupin eru fjármögnuð með lánsfé.

Hinsvegar miðast hefðbundið verðmat fyrirtækja á væntu sjóðstreymi þeirra í framtíðinni og slíkt verðmat kann að sýna að ákveðið fyrirtæki sé mun verðmætara en markaðurinn endurspeglar þá stundina. Fjárfestar sem líta á hlutabréfakaup sem langtímafjárfestingu kunna þannig að líta fram hjá skammtímasveiflum í verði og horfa frekar til mögulegrar hækkunar á komandi árum," segir greiningardeildin.

Atlantic Petroleum hefur hækkað um 3,01% og Avion Group hefur hækkað um 0,59%.

Tryggingamiðstöðin hefur lækkað um 6,33%, Landsbankinn hefur lækkað um 2,87%, FL Group hefur lækkað um 1,66%, Atorka Group hefur lækkað um 1,61% og Straumur-Burðarás hefur lækkað um 1,23%.

Gengi krónu hefur veikst um 0,08% og er 123,3 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá M5.