Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 2,1% frá því að opnað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni klukkan 10 í morgun og stendur nú þegar þetta er skrifað, kl. 12:00 í 3.062 stigum, samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,4% á föstudaginn og hélt áfram að lækka við opnun markaða í morgun þó lækkunin sé nokkuð minni en sést hefur í Evrópu í dag.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga en ekkert félag hefur þó hækkaði í morgun.

Velta með hlutabréf er sáralítil, um 750 milljónir, en í morgun voru viðskipti með fjármálafyrirtæki stöðvuð af fjármálaeftirlitinu.

Þar ef eru 156 milljónir króna með bréf í Exista en þó aðeins í tveimur viðskiptum. Þá er velta fyrir rúmar 150 milljónir með bréf í Össuri, rúmar 110 milljónir með bréf í Marel og um 70 milljónir í Straum og Kaupþingi en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum.

Krónan hefur veikst um 0,5% frá opnun gjaldeyrismarkaða í morgun og er gengisvísitalan nú 207,1 stig.