Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,6% og er 4.190 stig við hádegi. Gengi krónu hefur styrkst um 0,9% og er 155,1 stig, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Veltan nemur 9,4 milljörðum króna. Þar af eru tvenn stór utanþingsviðskipti með bréf Landsbankans; bæði fyrir 4,4 milljarða króna á genginu 22,8. Landsbankinn hefur lækkað um 0,2% við hádegi og er gengið jafnt og í téðum viðskiptum.

Í Evrópu eru flestir markaðir grænir það sem af er degi. Í frétt Dow Jones fréttaveitunnar segir að stuðningur bandarískra stjórnvalda hafi jákvæð áhrif á fjárfesta.

Litið til Norðurlandanna hefur danska vísitalan OMXC hækkað um 1% og sænska vísitalan OMXS hefur hækkað um 1,4%.

Norska vísitalan OBX hefur lækkað 1,3%, samkvæmt upplýsingum frá Euroland.

Lækkunin í Noregi er rakin til þess að Norsk Hydro féll um 12% í kjölfar afkomuviðvörunnar, sem segir að miklar kostnaðarhækkanir þurrki burt ávinninginn af hækkandi álverði.  Álfyrirtækið í íslensku kauphöllinni, Century Aluminiun, hefur hinsvegar hækkað um 1,1%.