Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,87% og er 7.441 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 5.235 milljónum króna.

Í gær lækkaði Úrvalsvísitalan um 1,47% og daginn þar áður um 2,53% en hlutabréf í Evrópu lækkuðu í kjölfar mikilla lækkana í Kína.

?Ró virðist vera að færast yfir hlutabréfamarkaði heimsins eftir nokkra róstusama daga,? segir greiningardeild Glitnis. ?Sá hrollur sem fór um markaði heimsins síðustu tvo viðskiptadaga virðist því fyrir bí enda var ekki um grundvallarbreytingu í efnahags- eða rekstrarumhverfi heimsálfanna að ræða. Við reiknum með áframhaldandi sterkum innlendum hlutabréfamarkaði í ár enda sjáum við enn rými til hækkunar á verði félaga auk væntinga um arðbæran ytri vöxt á árinu,? segir greiningardeildin.

Mosaic Fashions hefur hækkað um 5,3%, FL Group hefur hækkað um 2,99%, Atorka Group hefur hækkað um 2,3%, Actavis Group hefur hækkað um 2,22% og Kaupþing um 2,13%.

Marel hefur lækkað um 0,95%, Teymi hefur lækkað um 0,61%, 365 hefur lækkað um 0,54% og Icelandair Group hefur lækkað um 0,37%.

Gengi krónu hefur veikst um 0,42% og er 119,9 stig.