Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 4,1% við hádegi og er 5.307 stig, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Talsverðar lækkanir eru á erlendum mörkuðum. Breska vísitalan FTSE100 hefur lækkað um 4,28%, danska vísitalan hefur lækkað um 4,35%, norska vísitalan OBX hefur lækkað um 5,7% og sænska vísitalan hefur lækkað um 3,8%, samkvæmt upplýsingum frá verðbréfavefnum Euroland.

Ekkert íslenskt félag hefur hækkað það sem af er degi.

Spron hefur lækkað um 9,8% [ SPRON ], Atlantic Petroleum [ FO-ATLA ] hefur lækkað um 9,2%, Föroya banki [ FO-BANK ] hefur lækkað um 8,8%, FL Group [ FL ] hefur lækkað um 6,9% og Exista [ EXISTA ] hefur lækkað um 6%.

Gengi krónu hefur veikst um 1,4% og er 127,6 stig.

Í frétt MarketWatch er ástæða lækkunarinnar meðal annars rakin til ótta fjárfesta að franskir bankar þurfi að afskrifa mikið í bókum sínum.

Í frétt Dow Jones fréttaveitunnar er bent á að uppgjör olíuþjónustufélagsins Schlumberger hafi verið undir væntingum, sem tosað hefði niður olíufélög í Noregi.

Þar er haft eftir sérfræðingi að litla fréttir hafi mikil áhrif á markaðinn til lækkunar.

Gengi bréfa í Ambac féll um 65% og MBIA um 38% á fimmtudag í kjölfar þess að Moody’s og S&P lýstu því yfir deginum áður að þau hygðust endurmeta lánshæfismat félaganna. Bæði félögin hafa glatað meira en 8 milljörðum Bandaríkjadala af markaðsvirði sínu frá ársbyrjun 2007.   Góð lánshæfiseinkunn er grundvöllur fyrir starfsemi þeirra.