Ekki hefur verið um auðugan garð að gresja fyrir skíðaiðkendur landsins á þeim vetri er nú stendur yfir. Hvað höfuðborgarsvæðið áhærir hefur snjó vart náð að festa á aðalskíðasvæði þess landshluta, Bláfjöllum, en fyrir áramót voru þeir dagar sem svæðið var opið teljandi á fingrum annarrar handar.

Þó er ljóst að áhuginn er mikill meðal almennings og sést það glögglega á þeirri staðreynd að þúsundir manna flykktust að þá örfáu daga sem skíðasvæðið var opið. Að sama skapi hefur fjöldi þeirra sem fara utan til þess eins að komast á skíði fjölgað markvisst á síðustu árum. Þó má hugsa sér að hið langa, samfellda góðæri sem verið hefur við lýði á síðustu árum spili þar eitthvert hlutverk.

Hugmyndir um skíðahús – innanhússskíðabrekku hafa komið fram og viðmælendur Viðskiptablaðsins telja sumir hverjir að framtíð skíðaíþrótta á Íslandi standi og falli með byggingu hússins. Nýliðun í greininni hefur verið stopul á síðustu árum og ljóst er að ef sú þróun heldur áfram munu vetraríþróttir sem keppnisíþrótt eiga erfitt uppdráttar á Íslandi.

Þó ber að geta þess að við vinnslu þessa greinarkorns hófu starfsmenn Bláfjalla að ryðja brautir fyrir skíðaiðkendur þannig að ekki er öll nótt úti enn.

Nánar er fjallað um þetta mál í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta smellt á linkinn hér og sótt um aðgang að blaðinu.