*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 3. desember 2009 09:54

"Það hefur vantað kaupmenn í flestar verslanir"

Jón Gerald Sullenberger opnar sína fyrstu matvöruverslun

Gísli Freyr Valdórsson

Það má að vissu leyti segja að það sé „amerískt“ viðhorf sem tekur á móti viðskiptavinum Kosts. Við innganginn býður starfsmaður verslunarinnar fólk velkomið og við tekur matvöruverslun í vöruhúsastíl þar sem þurrvörur standa á brettum inni í hillueiningum og kælivörurnar s.s. kjöt og grænmeti eru raðað í kössunum sem þær koma í inn í verslunina.

„Með þessu móti handleikum við vöruna sem minnst,“ segir Jón Gerald í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þannig náum við bæði að halda kostnaði í lágmarki auk þess sem varan verður ferskari.“

Aðspurður um aðdragandann að opnun Kosts segir Jón Gerald að honum hafi fundist verðlag hátt og vöruúrval of einfalt. Hann hafi þó ekki verið kaupmaður áður heldur hafi hann einblínt á heildsölu síðustu 20 árin.

„Það hefur vantað kaupmenn í flestar verslanir,“ segir Jón Gerald og á þar við lágvöruverðsverslanir.

„Undantekningar frá því eru verslanir á borð við Fjarðarkaup og minni hverfaverslanir. Ég mun leggja mig fram um að vera kaupmaður og viðskiptavinir okkar munu njóta þess. Við leggjum mikla áherslu á vingjarnlegt andrúmsloft. Það má vissulega kalla það amerískt og kannski eitthvað sem Íslendingar hafa ekki vanist. En viðbrögðin eru góð og ég held að fólk kunni að meta það að starfsólkið sé vingjarnlegra en það hefur áður vanist.“ 

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér.