Á síðasta ári var vaxtastig í heiminum í 100 ára lágmarki en nú lítur út fyrir að tími ódýrrar fjármögnunar sé liðinn og helstu seðlabankar heims keppast við að stemma stigu við verðbólgu með vaxtahækkunum, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Eftir sautján vaxtahækkanir í röð virðist sjá fyrir endann á stýrivaxtahækkunum Seðlabanka Bandaríkjanna. Á sama tíma eru aðrir seðlabankar víða um heim rétt í þann mund að hefja sitt vaxtahækkunarferli," segir greiningardeildin.

1% vextir í Japan

Það er reiknað með að Seðlabanki Japans hækki stýrivexti sína um 25 punkta næsta föstudag og vextir verði 1% innan árs en stýrivextir hafa verið 0% undanfarin sex ár til þess að reyna að koma í veg fyrir þá verðhjöðnun sem þar hefur ríkt.

?Á sama tíma og Bandaríski Seðlabankinn hefur hækkað vexti sína um 4,25% hefur Evrópski Seðlabankinn aðeins hækkað vexti um 75 punkta og það virðist vera samróma álit greiningaraðila að bankinn muni hækka vexti um 25 punkta í 3% á næsta vaxtaákvörðunarfundi í ágúst og að vextir verði komnir í 4% í byrjun næsta árs," segir greiningardeildin.

Hagkerfi stödd á ólíkum stöðum

Greiningardeildin segir ástæður þess að Japanski og Evrópski Seðlabankinn eru komnir svo skammt á veg með vaxtahækkunarferli sitt í samanburði við Bandaríkin er að hagkerfin eru stödd á ólíkum stöðum í hagsveiflunni.

?Á meðan það lítur út fyrir að bandaríska hagkerfið sé að kólna virðist sem hagvöxtur í Japan og Evrópu sé að aukast," segir greiningardeildin.