Eins og kunnugt steig Hjörleifur Kvaran úr forstjórastóli fyrr í mánuðinum. Hafði hann gegnt því starfi síðan árið 2008. Að mati Hjörleifs þarf að halda áfram að hagræða í fyrirtækinu, að öðrum kosti þarf að koma til eiginfjárframlags um áramótin.

„Það þarf að halda áfram að hagræða í fyrirtækinu og lækka kostnað. Það þarf jafnframt að leiðrétta gjaldskrá sem ekki hefur hækkað í alltof langan tíma,“ segir Hjörleifur. Hann bendir á að rafmagn sem Orkuveitan framleiðir hafi ekki hækkað síðan árið 2005 og að verð á heitu vatni hafi síðast hækkað árið 2008, þá tiltölulega lítið.

„Lánastofnanir sem við höfum talað við, bæði innlanlands og erlendis hafa sagt að það sé ekki heil brú í að veita fyrirtækinu lán eða frekari lánafyrirgreiðslu nema að fyrirtækið sjálft styrki sín innviði og auki handbært fé frá rekstri.“

Vann að úttekt

Hjörleifi var falið að vinna að úttekt á Orkuveitunni og hvernig hægt sé að gera félagið fýsilegan lántakanda. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Hjörleifur að hann hafi lagt fram sínar tillögur áður en hann lét af störfum. „Mér var falið að vinna að úttekt á fyrirtækinu og gerði það. Í þau tvö ár sem ég starfaði sem forstjóri var hagrætt í rekstri og rekstrarkostnaður lækkaði um fleiri hundruð milljónir. Launakostnaður var einnig lækkaður, en starfsmönnum hefur fækkað um 38 sem er um 7-8%.“

Hjörleifur telur áætlunina, sem hann lagði fram um úrbætur á rekstri félagsins, trúverðuga og byggða á hófsemd. „Takmarkið var að búa til trúverðuga áætlun til 3-5 ára. Hana átti að sýna lánastofnunum. Ég taldi mig vera að því, að gera áætlun um hvernig mætti hagræða í rekstri og lækka laun. Þó vildi ég gera það á þann hátt að það bitnaði ekki á starfsmönnum.

Sömuleiðis vildi ég hækka gjaldskrá en gera það þannig að hækkunin kæmi ekki illa við neytendur. Ég vildi hækka gjöld í nokkrum þrepum. Ég tel að sú áætlun sem ég var að vinna að og leggja fram hafi verið ákaflega raunhæf og byggð á hófsemd en þó verið þannig úr garði gerð að hún hafi verið í samræmi við það sem lánastofnanirnar eru að biðja um. En áætlanir mínar féllu ekki í kramið hjá starfandi stjórnarformanni.“

Unnið að breytingum á lánaskilmálum

Hjörleifur segir að innan Orkuveitunnar sé einnig unnið að breytingum á skammtímalánum í lán til lengri tíma. „Við höfum verið að vinna að því en því miður gafst mér ekki tími til að ljúka þeim málum. Þetta eru skammtímalán sem eru á gjalddaga 2011 og 2013. En vonandi heldur sú vinna áfram og gengur vel,“ segir Hjörleifur.

Hann segir nauðsynlegt fyrir Orkuveituna að fjármagna sig og að það þurfi að gerast á næstu vikum. „Ef það gerist ekki þá lendir fyrirtækið í greiðsluþroti um áramótin. Það er bláköld staða. Eigendur eru í ábyrgð fyrir skuldum félagsins og lendi það í vandræðum eða greiðsluþroti um áramótin þá er ekki um annað að ræða en að eigandinn leggi því til fé.“

-Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna úttekt á skuldastöðu Orkuveitunnar og verðandi breytingum. Stjórn Orkuveitunnar mun að öllum líkindum tilkynna um gjaldskrárbreytingar eftir stjórnarfund sinn í dag.