Sérfræðingar SEB Enskilda og Nordea eru á öndverðum meiði þegar kemur að fjárfestingarráðgjöf á hlutabréfum Össurar. SEB mælir með kaupum en Nordea ráðleggur fjárfestum að selja bréfin.

Sérfræðingar bankanna voru þó ánægðir með uppgjör Össurar á öðrum ársfjórðungi og hækkuðu verðmöt sín: SEB hækkaði verðmatið í 11,5 danskar krónur á hlut en Nordea hækkaði sitt úr 7,2 í 8,0 DKR á hlut. Hluturinn stóð í 10,3 eftir lokun markaða í fyrradag. Greinendur SEB telja að forsvarsmenn Össurar séu enn of íhaldssamir þrátt fyrir að hafa hækkað síðustu áætlun eftir uppgjör annars ársfjórðungs. Þeir telja jafnvel að innri vöxtur félagsins verði 8% á þessu ári og EBITDA-vöxtur um 16%, hvorttveggja vel yfir nýrri uppfærðri áætlun stjórnenda.