Stærstur hluti þeirra tæplega 3.700 milljarða króna sem Íslendingar skulda erlendis eru í evrum, því skiptir miklu hvernig vextir á evrusvæðinu þróast, segir greiningardeild Glitnis.

?Nú er því spáð að Seðlabanki Evrópu hækki vexti sína í næstu viku um 0,25 prósentur það er upp í 3%. Bankinn hefur hækkað vexti þrisvar sinnum síðastliðna sjö mánuði. Mun þetta koma fram í hækkandi vaxtakostnaði erlendra lána Íslendinga á næstu mánuðum," segir greiningardeildin.

Vaxtagjöld af erlendum skuldum Íslendinga námu 25 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við 11 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

?Hækkunin skýrist af vaxtahækkunum í skuldamyntum, gengisþróun krónunnar og aukinni erlendri lántöku á tímabilinu. Búast má við að vaxtagjöld erlendra skulda fari yfir 100 milljarða króna á árinu miðað við 61 milljarð króna í fyrra. Til samanburðar má nefna að sjávarútvegurinn skapaði 110 milljarða króna í gjaldeyristekjur á árinu 2005," segir greiningardeildin.