Alls eru 9.308 manns skráðir atvinnulausir á Íslandi nú tveim dögum fyrir jól samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Það eru um 5,64% af vinnufæru fólki í atvinnulífinu sem telur um 165.000 manns. Þar af eru 5.826 skráðir atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu.

Búist er við töluverðri aukningu á atvinnuleysisskrár nú um áramótin þegar fjölmargir starfsmenn sem sagt var upp vinnu á haustmánuðum ljúka sínum uppsagnarfresti.

Mun fleiri karlar en konur hafa misst vinnuna á undanförnum mánuðum og eru atvinnulausir karlar nú 5.843 á landinu öllu á móti 3.465 konum. Á höfuðborgarsvæðinu ganga 3.779 karlar atvinnulausir á móti 2.047 konum.

Á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins er ástandið verst á Suðurnesjum, en þar eru 1.277 manns á atvinnuleysiskrá. Þar á eftir kemur Norðurland eystra með 933, síðan Suðurland með 593 og Vesturland með 318. Á Austurlandi voru 209 skráðir atvinnulausir í morgun 83 á Norðurlandi vestra og 69 á Vestfjörðum.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að um 12-13.000 útlendingar hafi verið hér við störf um mánaðamótin nóvember-desember, en þeim muni fækka niður í um 10.000 um áramótin. Alls voru 972 erlendir ríkisborgarar skráðir atvinnulausir hér á landi um síðustu mánaðamót, en um 2/3, eða 648 þeirra voru Pólverjar. Er það um fimmföldun á fjölda útlendinga á atvinnuleysisskrá, en langflestir koma úr byggingariðnaði.