Eitthvað er rotið í íslenska hagkerfinu og það hefur vakið efasemdir um að íslensku viðskiptabankarnir geti haft höfuðstöðvar sínar hér til framtíðar. Ef svo fer fram sem horfir gæti kostnaður vegna svokallaðs Íslandsálags orðið svo mikill að bankarnir geti einfaldlega ekki staðið undir honum. Álagið gæti því skilið á milli þess að vera eða ekki vera og því eðlilegt að bankarnir leiti allra leiða til að hrista það af sér. Ein slík leið hefur hlotið æ meiri umfjöllun eftir því liðið hefur á alþjóðalegu fjármálakreppuna, en hún felst í því að flytja höfuðstöðvar bankanna einfaldlega úr landi.

Hvort og hvernig þessi leið leysir vandræði bankanna er hins vegar ekki augljóst og hún vekur fjölda spurninga. Á hvaða hátt bætir flutningurinn stöðu bankanna? Er flutningurinn raunhæfur í framkvæmd? Er víst að Íslandsálagið sé eingöngu tilkomið vegna þess að bankarnir eru íslenskir, eða kemur fleira til?

Uppruni álagsins

Sennilega er skuldatryggingaálag hvergi jafn fyrirferðarmikið í þjóðmálaumræðunni og hér á landi. Venjulega þegar þessi spegill á lánakjör ríkisins og bankanna er til umræðu er jafnan hnykkt á því að hann gefi mjög bjagaða mynd af raunveruleikanum.

Engu að síður skrifaði Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, grein fyrr í vikunni þar sem segir að Íslandsálagið sé staðreynd og sýni að íslensku bankarnir njóti ekki sama trausts og sambærilegir bankar í öðrum löndum. Íslandsálagið er kannski augljós staðreynd en hvað veldur því er hins vegar ekki jafn augljóst. Meðal greiningardeilda bankanna ríkir þó nokkur samstaða um ástæðuna.

Í Vegvísi Landsbankans frá því í maí sl. segir að bankarnir standi vel hvað eigið fé og lausafjárstöðu varðar og því beinast „áhyggjur erlendra fjárfesta og fjármögnunaraðila fremur að Seðlabanka Íslands og getu hans til að veita bönkunum lausafjárfyrirgreiðslu, þ.e. að vera lánveitandi til þrautavara í þeim myntum sem bankarnir starfa.“ Í grein Ingólfs Benders, sem birtist í Morgunkorni Glitnis, segir enn fremur: „Álagið mótast öðru fremur af skoðun alþjóðamarkaða á stöðu hagkerfisins og hversu vel það er í stakk búið til að styðja við starfsemi fjölþjóðlegra banka.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .