Heildargólfflötur nýrra höfuðstöðva Samskipa, sem er stálgrindarbygging á þremur hæðum, er hartnær 28.000 fermetrar en grunnflötur þess er um 17.500 fermetrar, og gæti vel rúmað tvo knattspyrnuvelli með tilheyrandi áhorfendastúkum. Húsið er um 240 metra langt og 70 metra breitt og mesta lofthæð er um 17 metrar. Stærstur hluti þess fer undir Vörumiðstöðina, sem staðsett er á fyrstu hæð, með tilheyrandi aðstöðu fyrir tollgæslu, ásamt móttöku.

Jónar Transport eru með skrifstofur á annarri hæð og á þeirri þriðju eru skrifstofur Samskipa og smávöruloft. Er öll aðstaða fyrir stafsmenn í nýja húsinu til mikillar fyrirmyndar, t.d. er fullkomin bað- og búningsaðstaða fyrir ríflega 200 manns, tveir íþróttasalir og sérstök leikherbergi, ætluð börnum starfsmanna sem þeir geta þurft að taka með sér tímabundið í vinnuna.

Bygging hússins hefur gengið mjög hratt. Aðeins eru um 16 mánuðir liðnir frá því á þriðja hundrað starfsmenn tóku fyrstu skóflustunguna, þann 19. ágúst 2003, en fyrsti hluti byggingarinnar var tilbúinn strax í október 2004. Þá þegar var hafist handa við að flytja Vörumiðstöð Samskipa í húsið og var fyrsta vörusendingin úr nýja húsinu afgreidd formlega aðeins tveimur vikum síðar. Aðalskrifstofur félagsins voru fluttar í húsið rétt fyrir áramót ásamt starfsemi Landflutninga og fyrir nokkrum dögunum slógust svo starfsmenn dótturfélagsins Jóna Transports í hópinn. Lætur nærri að um 400 af 950 starfsmönnum Samskipa um heim allan starfi eða hafa aðstöðu í nýja húsinu við Kjalarvog.