Bandaríska orkufyrirtækið Hecate Wind vill reisa hátt í 200 fljótandi vindmyllur undan austurströnd Íslands sem samanlagt framleiði 2 þúsund megavött af raforku, ígildi rétt tæpra þriggja kárahnjúkavirkjana.

Af því fengi íslenski raforkumarkaðurinn eins mikið magn og hann vildi, en afgangurinn yrði seldur til Bretlands með sæstreng. Við ofangreint umfang væri svo hægt að bæta síðar.

Dr. Paul Turner, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, kom til Íslands með fjölskyldu sinni og íslensku vinafólki árið 2018. „Við fórum og skoðuðum Reynisfjöru og ég trúði því varla hvað vindurinn hentaði vel fyrir vindmyllur, ég fann það bara strax,“ segir hann og útskýrir aðspurður að slíkur „hágæða“ vindur einkennist af miklum og stöðugum vindhraða.

Turner hafði í kjölfarið samband við vindorkuráðgjafa Hecate og lét vinna greiningu á hagkvæmustu og ákjósanlegustu staðsetningu fyrir vindmyllugarð. „Við íhuguðum stuttlega í upphafi að hafa myllurnar á landi en niðurstaða greiningarvinnunnar var sú að austurströnd Íslands uppfyllti best þau skilyrði sem við höfðum lagt upp með.“

Meðal þeirra skilyrða var að hægt væri að hafa vindmyllugarðinn eins langt frá landi og mögulegt væri, svo að sem minnst og helst ekkert sæist í þær frá landi, vindgæðin að sjálfsögðu, og að lokum nálægð við Bretland.

Ráðlagt að halda sig sem lengst frá orkupakkanum

„Þegar ég fór að kynna mér málin var mér fljótlega ráðlagt að forðast það í lengstu lög að tengja Ísland við orkumarkað meginlandsins í ljósi þeirra álitamála sem þá voru í hámæli varðandi þriðja orkupakkann.“

„Ef Íslendinga færi einu sinni að gruna að það stæði til – sem það gerir alls ekki svo það sé á hreinu,“ bætir Turner strax við, „þá var mér tjáð að það gæti orðið meiriháttar vandamál.“

Sæstrengurinn til Bretlands muni því aðeins liggja að vindmylluþyrpingunni, sem eins og áður segir verði nokkuð frá landi, og muni aðeins geta flutt raforku í aðra áttina. Turner segir sérfræðinga vongóða um að orkutap vegna flutningsins, sem mun þurfa að ferðast lengstu vegalengd sem rafmagn hefur ferðast neðansjávar, verði líklega ekki mikið yfir 5%.

Hecate passaði sig því frá upphafi á því að allar teikningar endurspegluðu þær fyrirætlanir þeirra svo ekki yrði um villst, en það vildi svo til að um sama leyti var umræðan sem flestir muna um orkupakkann í algleymingi á Alþingi og víðar.

„Tímasetningin var… áhugaverð,“ segir Turner, sem ráðfærði sig við fjölda ráðgjafa hér á landi, bæði lögfræðinga og á öðrum sviðum. „Við hönnuðum verkefnið alveg frá grunni gaumgæfilega með þeim hætti að þriðji orkupakkinn hefði ekki bein áhrif.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing - Er framtíðin orkulaus eða orkulausnir. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.