Mjög góð stemming, baráttughugur og samstaða ríkti á fjölmennum fundi sem á Hilton Reykjavík Nordica síðdegis í dag undir yfirskriftinni „Núna“ er tækifærið. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra lýsti því þar yfir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að bjóða sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum landsins samning við Atvinnuleysistryggingasjóð.

Fundinn héldu Samtök iðnaðarins, Samtök líftæknifyrirtækja, Samtök sprotafyrirtækja, Samtök upplýsingafyrirtækja og Háskólinn í Reykjavík. Samningurinn sem Össur nefndi felur í sér að fyrirtækin hafa möguleika á að fá 90% af bótum atvinnulausra með hverjum manni sem ráðinn yrði af atvinnuleysisskrá, gegn sama framlagi fyrirtækjanna á móti. Sagði Össur engin sérstök takmörk á þeim fjölda sem fyrirtækjunum væri heimilt að ráða með þessum hætti.

“Þið skuluð bara fara út á markaðinn og finna ykkur gott ungt fólk til þess að ráða og halda áfram að byggja upp sprotaiðnaðinn.” Þá bætti Össur því við að í eftirrétt hafi iðnaðarráðuneytið ákveðið að setja á fót fjórar markáætlanir sem allar hafa það að markmiði að stofnuð verði öndvegissetur. Sagði Össur að þessu fylgdi töluvert fjármagn. Fyrsta verkefnið sagði hann vera á sviði innlendra orkugjafa. Annað á sviði jarðhita og tengdra greina. Þriðja verkefnið er á sviði ferðamála og fjórða verkefnið er á sviði arkitektúrs og skipulagshönnunar.

Á fundinum héldu nokkrir fulltrúar sprota og tæknifyrirtækja tölu og lýstu sinni reynslu og væntingum. Í máli margra þeirra komu fram tilboð um tugi starfa í þessum geira, m.a. um 25 ný störf í vöruþróun hjá Marel. Jafnframt kom fram áskorun á stjórnvöld að liðka til varðandi ýmsa þætti sem að rekstri og þróun þessar fyrirtækja lúta til að gera frekari ráðningar mögulegar.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, lýsti því m.a. að í hruni bankanna fælust mikil tækifæri fyrir nýsköpun í landinu. Nú þyrftu slík fyrirtæki ekki lengur að keppa við bankana sem boðið hafi tækifólki ofurlaun sem ekki var möguleiki á að bjóða í sprotafyrirtækjunum.

“Við höfum horft á bankaiðnaðinn soga til sín allt laust fé og allt laust Þeir buðu í allt klárt fólk inn í stofnanir sem eru eiginlega nokkurskonar sýndarveruleiki.” Sagði hann tækifæri Íslendinga nú liggja í því að þeir hafi verið fyrstir til að losna við þennan sýndarveruleika.

“Ég græt þessa banka ekkert sérstaklega,” sagði Hilmar. “Það er ekki “cool” að vera bankastarfsmaður. Það er “cool” að búa til tölvuleiki, “cool” að vera hjá Ladabæ, “cool” að búa til tónlist, “cool” að búa til menningu og listir og það er það sem Íslendingar eru góðir í. Allt frá því við skrifuðum Íslendingasögurnar þá hafa hugverk, sögur og menning verið það sem við höfum staðið okkur best í að flytja út. Það er það sem við eigum að gera.”

Lýsti Hilmar því líka að fyrirtækið CCP hafi áður gengið í gegnum erfiða tíma. Á árunum 2001 til 2002 hafi fyrirtækið verið mjög fjárvana. Samt hafi 40 starfsmennirnir unnið mánuðum saman launalaust til að halda starfseminni áfram.

“Það er líklega mesta stuðið sem nokkurn tíma hefur verið í fyrirtækinu. Það að vinna í sprotafyrirtæki á krepputímum er æðislegt!”   [email protected]