Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, telur að fyrri hluti ársins muni einkennast af mikilli útgáfu verðtryggðar sem óverðtryggðra pappíra, þar sem fyrirsjáanleg er aukin útgáfa Íbúðalánasjóðs, sveitarfélaga og ríkis í fyrstu lotu.  Við þetta bætist síðan að flest fyrirtæki í landinu þurfa að sækja sér aukið fé og því gæti önnur bylgja komið.

,,Ég tel að verðbólga muni ganga niður með sterkari krónu, en eins og tölur síðast liðna mánuði hafa sýnt fram á hefur orðið mikill viðsnúningur í viðskiptum við útlönd og varlega má reikna með góðum afgangi af vöruskiptum við útlönd á árinu. Það, ásamt hverfandi einkaneyslu og efstirspurnarþrýstingi í hagkerfinu, ætti öðru jöfnu að skjóta styrkari stoðum undir gengi krónunnar. Hins vegar mun lækkandi verðbólga ásamt miklu framboði skuldabréfa líkast til þrýsta raunvaxtastigi upp og því mun fyrri helmingur ársins einkennast af endurverðlagningu fjármuna, þ.e.a.s. vaxtabreytingum og endurmati áhættu og raunhæfs skuldaraálags eftir styrkleika útgefanda, auk þess sem ég tel að meira verði horft til trygginga og veða á bak við hverja útgáfu."

Saga Capital lauk nýverið við fjármögnun á Árborg og Kópavogi á ásættanlegum kjörum, en meginkaupendurnir voru lífeyrissjóðir, sem Þorvaldur Lúðvík segist telja að muni verða alls ráðandi á kaupendahliðinni á árinu. Hann sagðist telja að verðbréfasjóðir og aðrir fjárfestar munu spila minna hlutverk í þessu nýja umhverfi, en lífeyrissjóðir aftur verða meginkaupendur hvers kyns skuldaskjala og hlutabréfa er líður á.

,,Seinni hluti ársins kann að einkennast af vaxtalækkunum Seðlabanka og þar með lækkandi ávöxtunarkröfu á markaði, gangi spá okkar eftir.   Forsendur spárinnar eru auðvitað styrkara gengi, ört minnkandi verðbólga og minnkandi framboð skuldabréfa," sagði Þorvaldur Lúðvík.