Aare Dünhaupt, talsmaður Airlines for Europe, nýstofnaðra hagsmunasamtaka flugfélaga Evrópu, segir að viðræður séu í gangi við forsvarsmenn Icelandair og WOW air um aðild þeirra að samtökunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Túrista . Verið er að kynna samtökin fyrir stjórnendum flugfélaga víðs vegar um Evrópu.

Airlines for Europe, eða A4E, voru stofnuð af fimm stærstu flugfélögum Evrópu í ársbyrjun. Innan vébanda þess eru hefðbundin flugfélög eins og Lufthansa, British Airways, KLM og Air France en einnig Ryanair, easyJet og Norwegian, þrjú umsvifamestu lággjaldaflugfélög álfunnar.

Baráttumál samtakanna eru aðallega þrjú; lækkun flugvallargjalda, skilvirkt loftrými og niðurfelling ónauðsynlegra skatta. Árlega ferðast um 500 milljón farþega með flugfélögum A4E.

Eitt helsta viðfangsefni ársins hjá A4E hafa verið verkföll flugumferðastjóra víðs vegar um Evrópu, en kjaradeilurnar ollu töluverðu raski á flugumferð í álfunni síðustu misseri og kostuðu flugfélögin háar fjárhæðir. Ísland var engin undantekning, en í sumarbyrjun setti yfirvinnubann íslenskra flugumferðarstjóra flugáætlun flugfélaganna úr skorðum.

Í ár er gert ráð fyrir að samanlagður farþegafjöldi Icelandair og WOW air verði 5,3 milljónir farþega, eða 1% af árlegum farþegafjölda flugfélaga A4E.