Samkvæmt könnunum á reiðufjárnotkun heimila í Evruríkjunum og á Norðurlöndunum nota hvergi færri reiðufé í staðgreiðsluviðskiptum en á Íslandi. Þetta kemur fram í fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans.

Samkvæmt skýrslunni notar yfir helmingur heimilanna ekki reiðufé. Tæpur helmingur þeirra notar reiðufé ekki við kaup á vörum og þjónustu heldur til að gefa eða greiða öðrum. Í 90% tilvika nota heimilin rafrænar greiðslulausnir og um þriðjungur þeirra notar greiðsluöpp sem byggð eru ofan á greiðslukort. Í 10% tilvika er reiðufé notað.

Tæplega helmingur heimilanna sögðu að faraldurinn hefði breytt greiðsluhegðun þeirra. Snertilausar greiðslur, með snjallúrum og snjallsímum, hafa aukist og þá hefur netverslun sömuleiðis aukist.

Reiðufé í samanburði við Evruríki
Reiðufé í samanburði við Evruríki

Reiðufjárnotkun eftir löndum úr fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans.