Forsendur meirihlutasáttmálans og Viðreisnar eru brostnar að sögn Eyþórs Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokksins sem situr í minnihluta í stjórn borgarinnar því skuldirnar hækki þvert á samþykktir meirihlutasáttmálans.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og formaður Samfylkingarinnar sem situr í meirihluta með Viðreisn, VG og Pírötum segir hins vegar að borgarstjórn mæti samdrætti í efnahagslífinu með traustri fjármálastjórn, hóflegri hagræðingarkröfu og metnaðarfullri fjárfestingaráætlun.

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 og fimm ára áætlun 2020-2024 er til umræðu í borgarstjórn í dag, en samkvæmt fjárhagsáætlun næsta árs verður 2,5 milljarða króna afgangur af rekstri A hluta, sem er samdráttur um nærri milljarð frá 3,6 milljarða áætluðum afgangi í ár. Tekjur A-hluta eru áætlaðar 135,2 milljarðar króna en gjöld með afskriftum 132,1 milljarður króna

Samstæða A og B hluta er ætlað að skila 12,9 milljörðum króna, en þá bætist við rekstur fyrirtækja borgarinnar, það er Orkuveitu Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Félagsbústaðir og Malbikunarstöðin Höfði. Framlegð samstæðunnar (EBITDA sem hlutfall af tekjum) er áætluð 21,9% árið 2020 en mun hækka í 24,1% í fimm ára áætlun.

Skuldaviðmið samstæðu Reykjavíkurborgar var árið 2018 um 73% miðað við gildandi reglur þar sem gert er ráð fyrir að skuldaviðmið samstæðu sveitarfélaga séu innan við 150%. Álagningarhlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði er loks sagt lækka í áföngum á seinni hluta tímabilsins.

Skuldirnar hækki um 64 milljarða

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að áætlunin sýni að skuldir hækki stöðugt þvert á það sem standi í meirihlutasáttmálanum þar sem segir að skuldir skuli greiddar niður á meðan efnahagsástandið sé gott.

Hann bendir á í þessu samhengi að áætlunin geri ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar samstæðu Reykjavíkurborgar muni hækka verulega frá þeirri áætlun sem gerð var fyrir kosningarnar 2018 og er nú gert ráð fyrir að skuldir verði heilum 64 milljörðum hærri árið 2022. „Forsendur meirihlutasáttmálans og Viðreisnar eru því brostnar,“ segir Eyþór.

Ef horft er á fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir því að skuldir og skuldbindingar A hluta muni aukast samtals um 5,1% frá útkomuspá þessa árs, eða úr 111,9 milljörðum í 117,1 milljarð króna. Á sama tíma eykst eigið fé A hlutans úr 99,9 milljörðum í 102,5 milljarða eða um 2,5%. Þannig hækka heildareignirnar úr 211,3 milljörðum í 219,5 milljarða eða um 3,9% en þar með lækkar eiginfjárhlutfallið úr 47,3% í 46,7%.

„Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur leggur til að þessari þróun verði snúið við með því að selja Gagnaveitu Reykjavíkur og að söluandvirðið verði nýtt til að lækka skuldir og fjármagnskostnað í samstæðu Reykjavíkurborgar. Þá leggjum við til að Malbikunarstöðin Höfði verði seld og að hagrætt verði í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar um 5%.“

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu leggja til fjölda tillagna í tengslum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar,  m.a. að arðgreiðslum frá Orkuveitu Reykjavíkur verði ráðstafað til útsvarslækkana og að jöfn fjárframlög úr borgarsjóði verði greidd með börnum í grunn- og leikskólum borgarinnar, óháð rekstrarformi.

Enn fremur að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði fari úr 1,65% í 1,60% og að viðmiðunartekjur hækki til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega.

Þá munu borgarfulltrúar flokksins aukinheldur leggja til að farið verði í rekstrarútboð fyrir þrjú af þeim sjö bílastæðahúsum sem Reykjavíkurborg rekur í dag og að skoðað verði að bjóða út rekstur sorphirðu í borginni í þeirri viðleitni að lækka kostnað við sorphirðu.

Nærri 5 milljarðar í svokallaðar grænar fjárfestingar

Dagur segir samdrátt í efnahagslífinu að undanförnu krefjast þess að enn betur sé verið á varðbergi gagnvart efnahagsumhverfinu. Samt sem áður verði stór skref stigin við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og að ný verkefni á sviði velferðar verði áberandi eins og innleiðing NPA og nýtt stuðningsnet í þjónustu við börn og fjölskyldur.

„Þá erum við að fjármagna metnaðarfulla uppbyggingu íþróttamannvirkja, ekki síst í Breiðholti og Úlfarsárdal. Fjármögnun Borgarlínu hefur verið tryggð með samgöngusamningi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu við ríkið,“ segir Dagur.

„Laugavegur verður gerður að varanlegri göngugötu og Hlemm-torg verður endurgert á næstu árum. Ný jarð- og gasgerðarstöð tekur til starfa og söfnun lífræns úrgangs frá heimilum verður innleidd í áföngum og við förum í alþjóðlega skipulagssamkeppni um Samgöngumiðstöð Reykjavíkur við BSÍ. Grænar áherslur eru gegnumgangandi og loftslagsmál ávallt í forgrunni.“

Í fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun A- hluta Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að eytt verði 19,6 milljörðum króna í það sem kallaðar eru fjárfestingar, en þar eru inni ýmis konar uppbygging sundlauga, menningar- og íþróttahúsnæðis sem, endurgerð á Hlemmtorgi og gatnagerð í nýjum hverfum. Þar af eru 4,6 milljarðar sagðir varðir í það sem kallað er grænar fjárfestingar.