*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 14. desember 2017 10:47

Áætla 54 milljarða frá ferðaþjónustu

Samtök ferðaþjónustunnar áætla að tekjur hins opinbera hafi verið 54 milljarðar af ferðaþjónustu og kalla eftir nefnd um gjaldtöku.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

SAF áætla að á síðasta ári hafi beinar nettó tekjur ríkis og sveitarfélaga numið um 54 milljörðum króna af ferðaþjónustunni. Þá hefur verið áætlað að um 50% þess hagvaxtar sem við höfum notið frá árinu 2010 sé tilkominn vegna ferðaþjónustunnar með beinum eða óbeinum hætti að því er kemur fram í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Þá segir að þrátt fyrir það hafi kröftum helst verið beint í þá átt að finna leiðir til að leggja frekari skatta og gjöld á greinina. Þannig hafi gistináttagjald hækkað um 200% og gangi áætlanir stjórnvalda eftir munu álögur á bílaleigur hækka um 2,5 milljarða þegar vörugjöld á atvinnutæki hækka um 2,5 milljarða. Ennfremur sé það að færast í aukana að svæði í eigu ríkisins innheimti þjónustugjöld á ferðaþjónustufyrirtæki.

Enn frekari hugmyndir séu í nýjum stjórnarsáttmála, m.a. að auka enn skattheimtu í gegnum gistináttagjaldið, í gegnum komu- og brottfarargjöld sem og hvers konar þjónustugjöld. Ferðaþjónustan kallar eftir að samræmis sé gætt hvað gjaldtöku varðar, þannig að fyrirkomulag og aðlögun haldist í hendur. Þarna eigi stjórnvöld að ganga fram með góðu fordæmi.

„Hafa ber í huga að ekki er línulegt samband á milli fjölgunar ferðamanna og afkomu greinarinnar. Blikur eru á lofti. Samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar við aðra áfangastaði hefur versnað á árinu, m.a. vegna mikilla launahækkana, fjármagnskostnaðar og styrkingar á gengi krónunnar.“

SAF kalla því eftir að sett verði á laggirnar hið fyrsta formleg nefnd um tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga af ferðaþjónustu með þátttöku hagsmunaaðila og stjórnvalda. Með henni ætti markmiðið að vera að taka heildstæðar og stefnumarkandi ákvarðanir um gjaldtöku. Tryggja þurfi í auknum mæli umræðu og ákvarðanir tengdar uppbyggingu, skýru regluverki, skilvirkni greinarinnar og stöðugu rekstrarumhverfi.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is