Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2015 ásamt þriggja ára áætlun. Í áætluninni er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðunnar sem nemur um 35 milljónum króna. Áætlaðar tekjur eru 8.046 milljónir króna og veltufé frá rekstri um 9,5%.

Fram kemur í tilkynningu frá bæjarstjórninni að megináherslur í fjárhagsáætlun 2015 séu að standa vörð um þá grunn- og velferðarþjónustu sem veitt er af stofnunum bæjarins. Launahækkanir starfsmanna séu fyrirferðamiklar í áætluninni enda hafi verið samið við flesta hópa á liðnu ári. „Starfsfólk sveitarfélaga hefur setið eftir í launahækkunum á síðustu árum og það er vel af því komið að fá kjör sín bætt,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri.

Mosfellsbær er sjöunda stærsta sveitarfélag landsins með rúmlega 9 þúsund íbúa og hefur íbúafjölgun verið bæði hófleg og stöðug undanfarin ár. Í þriggja ára áætluninni er gert ráð fyrir að 403 nýjar íbúðir verði byggðar í bæjarfélaginu á næstu fjórum árum, en það er nokkru meira en byggt hefur verið frá árinu 2012. Er jafnframt gert ráð fyrir íbúum muni fjölga töluvert meira en undanfarin ár, eða úr 9.179 íbúum á þessu ári í 10.364 íbúa árið 2018.