*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 9. október 2019 12:00

Hótelberbergjum fjölgi um 1.400

Samkvæmt áætlunum mun gistirýmum á höfuðborgarsvæðinu fjölga um allt að fjórðung á næstu þremur árum.

Ritstjórn
Hótelherbergjum mun fjölga verulega á næstu þremur árum, sér í lagi í miðbæ Reykjavíkur.
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt nýrri útgáfu Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands hefur, ólíkt öðrum flokkum atvinnuhúsnæðis, bæði framboð og eftirspurn eftir hótelum og öðru gistirými aukist ört á síðustu árum. „Horfur eru á að framboðið aukist áfram og samkvæmt áætlunum mun gistirýmum á höfuðborgarsvæðinu fjölga um allt að fjórðung á næstu þremur árum,“ segir ennfremur í ritinu, en reiknað er með að 1.400 ný hótelherbergi bætist við á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu. 

„Eigi ekki að myndast offramboð á markaðnum verður eftirspurn eftir ferðaþjónustu að aukast verulega á næstu árum.“

Fækkun ferðamanna í ár hefur ekki haft samsvarandi áhrif til fækkunar á fjölda gistinátta, en mestur virðist samdrátturinn vera í ódýrustu gistimöguleikunum, heimagistingu og gistibílum. 

„Framboð gistirýmis heldur áfram að aukast og enn er mikið af hótelum og gistiheimilum í byggingu, eins og nánar er fjallað um í umfjöllun um atvinnuhúsnæði. Aukið framboð gistirýmis samhliða fækkun ferðamanna hefur leitt til þess að nýting hótelherbergja hefur versnað og líkur eru á að sú þróun haldi áfram. Staðkvæmdaráhrif við óskráða gistimöguleika munu þó einnig hafa áhrif á nýtinguna. Nýtingarhlutfallið hér á landi er þó enn hátt í alþjóðlegum samanburði.“

„Horfur eru á að framboð gistirýmis aukist hlutfallslega mun meira á næstu árum en framboð annars atvinnuhúsnæðis. Áætlað er að um 1.400 ný hótelherbergi bætist við á höfuðborgarsvæðinu á næstu þremur árum, sem er um fjórðungsfjölgun. Telst það mikil aukning, sérstaklega þegar haft er í huga að gistirými á höfuðborgarsvæðinu hefur þegar aukist um 81% í fermetrum talið á síðustu níu árum. Uppsafnaður vöxtur í öðrum flokkum atvinnuhúsnæðis nam aðeins 5-11 prósentum á sama tíma. Tvennt dregur þó úr líkum á yfirskoti í framboði gistirýma til skamms tíma. Annars vegar er nýting hótelherbergja enn góð í alþjóðlegum samanburði. Hins vegar hefur framboð heimagistingar dregist saman, sem stuðlar að aukinni eftirspurn eftir hótelherbergjum. Til lengri tíma litið verður eftirspurn eftir ferðaþjónustu að aukast töluvert eigi ekki að verða offramboð á gistirými á höfuðborgarsvæðinu.“