Jón Gnarr, borgarstjóri, lagði fram frumvarp að þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2012-2014 á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag. Frumvarpið byggir á endurskoðaðri fjárhagsáætlun A-hluta fyrir árið 2011 og endurskoðaðri áætlun Orkuveitu Reykjavíkur. Við gerð þess er í öllum aðalatriðum fylgt sömu aðferðafræði og viðhöfð hefur verið við tvær síðustu þriggja ára áætlanir.

Nýir kjarasamningar og margvíslegar breytingar á tekju- og útgjaldahlið borgarsjóðs kallar á mikla vinnu við endurskoðun á forgangsröðun fjármuna sem unnið er að um þessar mundir. Niðurstaða þeirrar vinnu mun birtast við framlagningu á frumvarpi að fjárhagsáætlun 2012 og fimm ára áætlun 2012-2016.

A-hluti

A-hluti Reykjavíkurborgar samanstendur af Aðalsjóði og Eignasjóði. Rekstur innan A hluta er að hluta eða öllu leyti fjármagnaður með skatttekjum. Samkvæmt áætlun A-hluta er gert ráð fyrir að rekstarniðurstaðan verði í jafnvægi öll árin á tímbailinu 2012-2014. Ekki eru áætlaðar breytingar á álagningarhlutföllum útsvars eða fasteignagjalda eða vegna annarra tekjustofna m.v. endurskoðaða áætlun árins 2011.

Aðalsjóður

Aðalsjóður Reykjavíkurborgar annars reglubundinn rekstur málaflokka sem er í meginatriðum fjármagnaður með skatttekjum og þjónustutekjum. Áætlað er að rekstarniðurstaða Aðalsjóðs verði neikvæð allt tímabilið og fari úr því að vera -2,9 milljarðar króna samkvæmt endurskoðaðri áætlun 2011 í rúmlega -4,6 milljarða króna árið 2014. Áætlað er að eignir Aðalsjóðs dragist saman um 20,3% á tímabilinu og verði í lok þess um 58,5 milljarðar króna.