Vonir standa til þess að nýr, sameinaður banki hefji starfsemi með haustinu. Bankinn mun starfa undir nýju heiti sem verður kynnt síðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MP banka og Straumi. Þar er greint frá því að stjórnir MP banka og Straums hafi samþykkt áætlun um samruna félaganna og hann miðist við 31. desember 2014. Sumruninn sé háður samþykki hluthafafundar beggja banka, Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.

Skipting hlutafjár í hinu sameinaða félagi verður þannig að núverandi hluthafar MP banka hf. munu eiga 58,66% af virku hlutafé en núverandi hluthafar Straums fjárfestingabanka hf. munu eignast 41,34% af virku hlutafé.

„Sameining MP banka og Straums fjárfestingabanka hefur augljósan ávinning í för með sér fyrir hluthafa beggja félaga. Sameinaður banki verður með sterka stöðu á sviði fjárfestingabankastarfsemi og eignastýringar og mun horfa til frekari sóknarfæra á þeim sviðum,“ segir í tilkynningunni.