Eik fasteignafélag birti við lokun hlutabréfamarkaðarins í dag rekstraráætlun fyrir árið 2016. Í áætluninni er gert ráð fyrir að  tekjur félagsins á árinu verði einhverjar 6.879 milljónir króna eða tæpir 7 milljarðar. Rekstraráætlunina má lesa í heild sinni hér .

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, segir stjórnendur fyrirtækisins sátta við rekstraráætlunina og spennta fyrir því að takast á við tækifæri ársins.

„Við erum mjög ánægð með áætlunina. Okkur tókst að landa samningum við stærstu leigutakana okkar, og það hafði verið dálítil óvissa sem fylgdi því - en nú höfum við eytt þeirri óvissu,” segir Garðar í viðtali við Viðskiptablaðið.

Þá gert ráð fyrir að að gjöld félagsins muni nema um 2 milljörðum króna, sem gefur gróft EBITDA upp á tæpa 4,5 milljarða króna. Þá mun skrifstofuhald og stjórnun kosta um 305 milljónir króna, og viðhald og endurbætur 313 milljónir króna.

Garðar segir helstu áskoranir Eikar á komandi ári vera helst á útleigumarkaðnum. „Það er fyrst og fremst að mæta þörfum í útleigunni, og að grípa þau tækifæri sem munu gefast,” segir Garðar.

Leigutekjur félagsins eru metnar út frá gildandi leigusamningum og spám um breytingar á þessum leigusamningum innan ársins 2016. Þá var einnig tilkynnt um að samkomulag hefði náðst um endurnýjun leigusamninga Eikar við Símann og Mílu - en þá verða leigusamningar lengdir.