Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, auk sveitarfélaganna sjálfra, stefna að því að gera samstarfssamning við Fluglestina Þróunarfélag ehf. um undirbúningu að byggingu hraðlestar til Keflavíkurflugvallar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Áætlaður heildarkostnaður við verkefnið er talið vera 105 milljarðar króna. Að baki Fluglestinni standa Fasteignafélagið ­Reitir, Landsbankinn, Ístak, Kadeco og Efla en að sögn eru þessir aðilar þegar búnir að leggja 150 milljónir í verkefnið.

Samningurinn sem sveitarfélögin stefna að því að gera snýr að skipulagsmálum vegna hraðlestarinnar. Sveitarfélögin gefa þá vilyrði fyrir því að skilgreina nauðsynlegar lóði í deiliskipulagi og úthluta þeim og/eða byggingarrétti vegna framkvæmda.  Auk þess munu þau tryggja nauðsynlegt samstarf við framkvæmd og gerð mats á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar.

Gert er ráð fyrir því að lestin muni ferðast á 250 kílómetra hraða á klukkustund og að ferðatími milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar verði 15-18 mínútur.

Að sögn talsmanns Fluglestarinnar þá er áætlað tvö ár í frekari rannsóknar- og skipulagsvinnu og mat á umhverfisáhrifum. Síðan eitt ár í forhönnun og gerð úboðsgagna. Ef allt gengur eftir þá geta framkvæmdir hafist eftir þrjú ár.