Eftir mögur ár í innviðafjárfestingu virðist sem ýmis stórverkefni séu nú í startholunum. Þar ber ef til vill hæst framkvæmdir við nýjan Landspítala, sem eru nú að hefjast eftir margra ára undirbúning og umræður. Á dögunum voru kynntar hugmyndir um gríðarmikla uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, en kostnaður fyrsta áfanga þeirrar uppbyggingar er áætlaður um 70-90 milljarðar króna.

Í tillögu að samgönguáætlun 2015-2018 er kostnaður Dýrafjarðarganga áætlaður 7,5 milljarðar og kostnaður Seyðisfjarðarganga 20 milljarðar. Þá má nefna uppbyggingu raforkukerfisins og hugmyndir um uppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og innanhússíþróttir.

Rannsóknir Þórðar Víkings Friðgeirssonar, lektors við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, benda til þess að næstum því 90% líkur séu á því að stór opinber verkefni hér á landi fari fram úr kostnaðaráætlun.Spurður um það hvort útlit sé fyrir að þau opinberu verkefni sem nú eru í bígerð fari fram úr áætlun er Þórður ómyrkur í máli. Hann segir engin sérstök teikn á lofti um að stjórnsýslan hafi lagt sig fram við bætt vinnubrögð í gerð kostnaðaráætlana.

„Ef maður notar líkindafræðina þá eru mjög háar líkur, jafnvel áttatíu, níutíu prósent líkur, á því að þessi verkefni fari fram úr kostnaðaráætlun, ef við tökum mið af fyrri framkvæmdum. Það er það eina sem maður getur sagt,“ segir Þórður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .