Þýskur dómstóll hefur stöðvað verkfallsaðgerðir flugmanna flugfélagsins Lufthansa. Flugfélagið hafði áður aflýst 1.000 flugferðum félagsins í dag, en dómurinn kom of seint til þess að hægt væri að draga þær til baka. Verkfallið setur áætlanir 140 þúsund ferðamanna úr skorðum. BBC News greinir frá þessu.

Flugmenn Lufthansa hófu verkfallsaðgerðir í gær en þá höfðu aðgerðir aðeins áhrif á lengstu flugleiðir félagsins. Aðgerðir dagsins ná hins vegar einnig að yfir styttri flug. Vilja flugmennirnir bæði betri launakjör og hærri eftirlaun.

Talsmaður Lufthansa segir að stöðvun verkfallsins sé góðar fréttir fyrir flugfarþega. Hins vegar hafi úrskurðurinn komið of seint til þess að hægt væri að breyta flugáætlun dagsins. Flug á vegum félagsins verða komin aftur í samt horf á morgun.