Félag bókhaldsstofa bendir á að á sama tíma og aðilum á grunnskrá RSK hafi fjölgað gríðarlega hafi skilafrestur RSK verið styttur. Álag á bókara og endurskoðendur hafi fyrir vikið aukist mikið og erfiðara sé að fá bókhaldsþjónustu sem bitni verst á litlum fyrirtækjum og einstaklingum í rekstri.

Samkvæmt svörum Ríkisskattstjóra við fyrirspurnum viðskiptablaðsins voru áætlanir á þessu ári 20.187 talsins sem er 84% auking frá árinu  2015 þegar þær voru 10.990 talsins. Tölurnar taka til fjölda áætlana einstaklinga, hvort sem þeir eru í rekstri eða ekki, en á tímabilinu fjölgaði aðilum á grunnskrá embættisins um rúm 13% úr 271 þúsund upp í 308 þúsund. Hlutfallslega hefur áætlunum því fjölgað eitthvað minna  en árið 2015 námu áætlanir um 4% af heildarfjölda aðila á grunnskrá samanborið við 6,5% nú í ár sem jafngildir rúmlega 60% aukningu.

Mikil uppsveifla hefur verið í hagkerfinu og bæði fyrirtækjum og launþegum fjölgað mikið á síðustu fimm árum. Skráð fyrirtæki voru til að mynda nær 30% fleiri í fyrra en árið 2015. Launagreiðendum hefur fjölgað um nær 20% á sama tímabili og starfandi á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað um 15%.

Fjölgun launþega má nær alfarið rekja til fjölgunar erlendra starfsmanna en fjöldi aðila á grunnskrá Ríkisskattstjóra með erlent ríkisfang hefur ríflega tvöfaldast frá árinu 2015. Það ár taldi erlent launafólk rúmlega 20 þúsund sem er um 7,4% af heildarfjölda aðila á grunnskrá RSK, Á síðasta ári var erlent starfsfólk um 42 þúsund talsins sem er um 13,4% af aðilum á grunnskrá RSK.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins kann þessi mikli fjöldi og fjölgun erlendra starfsmanna að eiga hlut í auknum vanskilum. Mjög margir starfa hér tímabundið og eru oft farnir þegar þarf að skila framtali og þá er hætt við að það gleymist.

Önnur ástæða fyrir fjölgun áætlana sem viðmælendur blaðsins nefna er að á sama tíma og fyrirtækjum og launagreiðendum hefur fjölgað hratt hefur skilafrestur verið styttur. Fyrst og fremst hefur tímarammi fagaðila til framtalsskila verið þrengdur og í dag er hann um þremur til fjórum vikum styttri en árið 2015, en styttingin nemur u.þ.b. einni til tveimur vikum gagnvart einstaklingum sem sjálfir skila sínu skattframtali.

„Sú staðreynd að stytta framtalsfrest eins og gert hefur verið sl. ár hefur vissulega aukið álagið, sums staðar mjög mikið. Sérstaklega hjá þeim sem eru með mikið af uppgjörum fyrir einstaklinga í rekstri,” segir Rannveig Lena Gísladóttir, viðskiptafræðingur og formaður Félags bókhaldsstofa.

„Ég þekki ekki nokkurn fagaðila í okkar hópi sem glímir við verkefnaskort og margir þurfa einfaldlega að vísa frá sér verkefnum þar sem ekki er nægur mannafli í fyrirtækjunum til að sinna öllu því sem við erum beðin um að vinna.  Það sem hefur valdið mér sérstaklega áhyggjum vegna alls þessa álags er að öll þessi pressa leiði til þess að skattskil séu ekki nægjanlega vel unnin.

Mikil tímapressa verður alltaf til þess að fólk reynir að flýta sér eins mikið og hægt er og því aukast líkur á því að eitthvað gleymist og/eða sé ekki nægjanlega vel unnið. Það er mín tilfinning að í okkar stétt vanti fleiri fagaðila því að álag á stéttina hefur verið gríðarlegt og eykst með hverju ári.  Fyrirtækjum á grunnskrá RSK hefur farið töluvert fjölgandi og langstærstur hlutinn er tiltölulega lítil eða meðalstór fyrirtæki sem er akkúrat sá hópur sem fagaðilar eru að þjónusta,“ segir Rannveig Lena