Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian hefur það yfirlýsta markmið að knésetja SAS og víst er að félagið hefur strítt risanum forna á norrænum flugmarkaði á undanförnum árum. Enn eitt skref í þá átt átti að vera langflug til bæði Tælands og yfir Atlantshafið og var miðað við að það hefðist í sumar sem leið en nú hafa allar slíkar áætlanir verið settar á ís í bili.

Norwegian er þó engan veginn að fatast flugið ef marka má orð Björns Kjos, forstjóra félagsins, í samtali við sænska viðskiptavefinn di.se. Hann segir ástæður þessa vera seinkun á afhendingu Boeing Dreamliner véla sem fyrirtækið hefur pantað til þess að sinna þessum langflugum. „Við ákváðum fyrir um hálfu ári að sinna þessum flugum með eigin Dreamliner-vélum,“ segir Kjos en áður hafði staðið til að leigja vélar.

Stefnt er að því að langflug Norwegian hefjist í fyrsta lagi árið 2013.