Breskir ráðamenn hafa ekki tekið vel í hugmyndir frumkvöðulsins Edi Truell um að tryggja lágmarksverð á rafmagni um sæstreng frá Íslandi í 35 ár. Truell, sem auðgaðist á fjárfestingarfyrirtæki sínu Duke Street, vill fá ríkisábyrgð á framkvæmdinni sem felur í sér 1.000 sjómílna rafmagnskapal milli Skotlands og Íslands til að flytja jarðhitaorku eins og það er kallað í frétt Sunday Times .

Bæði fyrrum viðskiptaráðherra Greg Clark og orkumálaráðherra Claire Perry í ríkisstjórn Theresu May höfnuðu tillögum hans, og Kwasi Kwarteng og Andrea Leadsom, ráðherrar í ríkisstjórn Boris Johnson eru talin hafa haft efasemdir áður en þingið var leyst upp fyrir komandi kosningar í landinu.

Truell, sem hefur verið mikilvirkur stuðningsmaður Íhaldsflokksins, hefur því hótað að fá dómskvaddan matsmann, og að hann muni hætta við að byggja kapalverksmiðju í norðuraustur Englandi sem átti að vera nýtt fyrir verkefnið, ef hann fær ekki stuðning ríkisins. Verksmiðjan átti að kosta 200 milljón sterlingspund, eða sem samsvarar 31,3 milljörðum króna.

Í maí á þessu ári var sagt frá því að tæplega 400 milljarða króna fjármögnun alls verkefnisins væri langt komin en þá sagði Truell að það kostaði stjórnvöld ekki einn eyri að skilgreina verkefnið sem orkuframleiðanda utan Bretlands. En þar með fengi það aðgang að niðurgreiðslum sem þegar hafa verið ákveðnar fyrir slík verkefni.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Truell fengið alþjóða fjárfesta að verkefninu, þar með talið lífeyrissjóði . Áður hugðist Truell kaupa um 13% hlut í HS Orku, fyrir 9 milljarða króna, en félag í eigu íslensku lífeyrissjóðanna nýtti forkaupsrétt og gekk inn í þau kaup. Þvert á gagnrýni þess efnis hefur því verið haldið fram að sæstrengur hækki ekki verð innanlands.

Hér má sjá fleiri fréttir um sæstrengsverkefni Truell milli Íslands og Bretlands: