Á næsta kröfuhafafundi þrotabús Baugs, þann sjötta janúar, stendur til að taka ákvörðun um ráðstöfun 13,7 milljarða króna kröfu þrotabúsins á hendur Kaupþingi. Hæstiréttur staðfesti kröfuna þann 4. desember, en hún tengist sölunni á hlutum Baugs í Högum til félagsins 1998 ehf.

Erlendur Gíslason, skiptastjóri þrotabús Baugs, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að óskað verði eftir heimild kröfuhafa þrotabúsins til að selja kröfuna á hendur Kaupþingi. Hlutverk hans sem skiptastjóra sé að ljúka skiptum á þrotabúinu sem fyrst, en óvíst sé hvenær skiptum ljúki á Kaupþingi.

Erlendur bendir á að kröfur á hendur bönkunum gangi kaupum og sölum og nokkrir hafi sýnt eigninni áhuga. Hann segir að umræður um útgönguskatt á greiðslur til kröfuhafa gömlu bankanna séu þó farnar að hafa áhrif á verðmæti krafna á hendur bönkunum. Hann gerir ráð fyrir að söluverðið verði um þrír milljarðar króna. Algengt sé að gangverð kröfu á hendur bankanum sé um 20-25% af nafnvirði.